6. Hagnýting á heildun

Nauðsynleg undirstaða

  • Föll

  • Afleiður

  • Heildun


It is a comfort not to be mistaken at all points. Do I not know it only too well!

– Gandalf, The Two Towers


6.1. Flatarmál svæða

6.1.1. Setning: Flatarmál milli tveggja ferla

Setning

Gerum ráð fyrir að \(f(x)\) og \(g(x)\) séu samfelld föll þannig að \(f(x)\geq g(x)\) á bilinu \([a,b]\). Látum \(R\) tákna svæðið sem afmarkast af ferlum fallanna tveggja og línanna \(x=a\) og \(x=b\). Þá má reikna flatarmál svæðiðsins \(R\) með

\[A = \int_a^b (f(x)-g(x)) dx.\]
../_images/PMA_flatarmal_milli_tveggja_ferla.png

6.1.2. Dæmi: Flatarmál milli tveggja ferla

Dæmi

Látum \(R\) vera svæði sem er takmarkað að ofan af fallinu \(f(x)=x+4\) og að neðan af \(g(x)=3-\frac{x}{2}\) á bilinu \([1,4]\). Finnum flatarmál \(R\).

6.1.3. Setning: Flatarmál samsettra svæða

Setning

Gerum ráð fyrir því að \(f(x)\) og \(g(x)\) séu samfelld á bilinu \([a,b]\). Látum \(R\) tákna svæðið sem myndast milli grafa fallanna og er afmarkað af línunum \(x=a\) og \(x=b\). Þá má reikna flatarmál svæðiðisins \(R\) með

\[A = \int_a^b |f(x)-g(x)| dx.\]
../_images/PMA_flatarmal_samsettra_svaeda.png

6.1.4. Dæmi: Flatarmál samsettra svæða

Dæmi

Látum \(R\) vera svæðið sem myndast milli grafa fallanna \(f(x)=\sin(x)\) og \(g(x)=\cos(x)\) á bilinu \([0,\pi]\). Finnum flatarmál svæðisins \(R\).

6.1.5. Setning: Heildað m.t.t. \(y\)

Setning

Látum \(u(y)\) og \(v(y)\) vera samfelld föll þannig að \(u(y) \geq v(y)\). Látum \(R\) tákna svæðið sem afmarkast af gröfum fallanna og línunum \(y=d\) og \(y=c\). Þá má reikna flatarmál svæðisins \(R\) með

\[A = \int_c^d (u(y)-v(y)) dy.\]

6.1.6. Dæmi: Heildað m.t.t. \(y\)

Dæmi

Látum \(v(y)=\sqrt{y}\) og \(u(y)=2-y\). Finnum flatarmálið sem myndast á milli ferla fallanna á bilinu \([0,1]\).


6.2. Heildi, vísisföll og lograr

6.2.1. Náttúrulegi logrin sem heildi

Rifjum upp veldisregluna fyrir heildi sem segir að

\[\int x^n dx = \frac{x^{n+1}}{n+1} + C, n \neq -1.\]

Augljóst er að þetta virkar ekki þegar \(n=-1\) því þá væri deilt með 0. Þá þarf að leiða hugann að því hvað skal gera þegar reynt er að meta heildið

\[\int \frac{1}{x} dx.\]

Rifjum upp að undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar segir að

\[\int_1^x \frac{1}{t}dt\]

sé stofnfall fyrir \(1/x\). Það gefur okkur eftirfarandi skilgreiningu.

6.2.2. Skilgreining: Náttúrulegi logrinn sem heildi

Skilgreining

Fyrir \(x>0\) má skilgreina náttúrulega logrann sem

\[\ln(x) = \int_1^x \frac{1}{t}dt.\]

6.2.3. Setning: Afleiða náttúrulega lograns

Setning

Fyrir \(x>0\) gildir að afleiða náttúrulega lograns er gefin með

\[\frac{d}{dx} \ln(x) = \frac{1}{x}.\]

6.2.4. Hjálparsetning

Hjálparsetning

Fallið \(\ln(x)\) er diffranlegt og þar með samfellt.

Af grafi fallsins \(f(x)=\ln(x)\) má ljóslega sjá að það er samfellt á skilgreiningarmengi þess, þ.e. \(]0,\infty[\).

../_images/PMA_lnx1.png

6.2.5. Dæmi: Afleiða náttúrulega lograns

Dæmi

Reiknum afleiðuna

\[\frac{d}{dx} \ln(5x^3-2).\]

6.2.6. Setning: Heildi sem skilar náttúrulega logranum

Setning

Náttúrulegi logrinn er stofnfall fallsins \(f(u)=1/u\), þ.e.

\[\int \frac{1}{u} du = \ln|u|+C.\]

6.2.7. Dæmi: Heildi sem skilar náttúrulega logranum

Dæmi

Reiknum heildið

\[\int \frac{x}{x^2+4}dx.\]

6.2.8. Setning: Lograreglur

Lograreglur

Ef \(a,b>0\) og \(r\) er ræð tala þá gildir

  1. \(\ln(1)=0\)

  2. \(\ln(ab)=\ln(a)+\ln(b)\)

  3. \(\ln(a/b) = \ln(a)-\ln(b)\)

  4. \(\ln(a^r)=r\ln(a)\)

6.2.9. Dæmi: Lograreglur

Dæmi

Einföldum stæðuna

\[\ln(9)-2\ln(3) + \ln(1/3).\]

6.2.10. Skilgreining á tölur Eulers

Hægt er að nota náttúrulega logrann til þess að skilgreina tölu Eulers, þ.e. óræðu töluna \(e\).

6.2.11. Skilgreining: Tala Eulers

Skilgreining

Talan \(e\) er skilgreind sem sú rauntala sem uppfyllir að \(\ln(e)=1\). Með öðrum orðum þá skal flatarmál svæðisins sem myndast undir ferli fallsins \(y=1/t\) og yfir \(x\)-ás á milli línanna \(t=1\) og \(t=e\) vera 1. Þetta er sambærilegt því að rita með stærðfræðitáknum að

\[\int_1^e \frac{1}{t} dt = 1.\]
../_images/PMA_e.png

6.2.12. Veldisvísifallið

Athugum að náttúrulegi logrinn er eintækt fall og á sér því andhverfu. Köllum hana \(\exp(x)\). Samkvæmt skilgreiningu á andhverfu gildir þá að

\[\exp(\ln(x)) = x \text{ fyrir öll } x>0 \text{ og } \ln(\exp(x))=x \text{ fyrir öll } x.\]

Munum einnig að andhverfa er speglun fallsins um línuna \(y=x\)

../_images/PMA_lnx_ex1.png

Ef við skoðum grafið gaumgæfilega má sjá að fallið \(\exp(x)\) er í raun veldisvísisfallið \(e^x\), þ.e. \(\exp(x)=e^x\). Af þessu leiðir að veldisvísisfallið er andhverfa náttúrulega lograns.

6.2.13. Skilgreining: Andhverfa veldisvísisfallsins

Skilgreining

Fyrir hvaða rauntölu \(x\) sem er skilgreinum við \(y=e^x\) sem þá tölu sem uppfyllir að \(\ln(y) = \ln(e^x)=x\).

Af þessu leiðir að

\[e^{\ln(x)} = x \text{ fyrir öll } x>0 \text{ og } \ln(e^x)=x \text{ fyrir öll } x.\]

6.2.14. Setning: Veldisvísisreglur

Veldisvísisreglur

Ef \(p\) og \(q\) eru rauntölur og \(r\) er ræð tala þá gildir

  1. \(e^pe^q=e^{p+q}\)

  2. \(\frac{e^p}{e^q}= e^{p-q}\)

  3. \((e^p)^r = e^{pr}\)

6.2.15. Dæmi: Veldisvísisreglur

Dæmi

Reiknum afleiðuna

\[\frac{d}{dt} e^{3t}e^{t^2}.\]

6.2.16. Almennt um logra og vísisföll

Munum að vísisföll eru föll á forminu \(f(x)=a^x\) og lograr eru föll sem hafa formið \(\log_b(x)\) þar sem \(a,b\in \mathbb{R}\).

6.2.17. Skilgreining: Vísisföll skilgreind með veldisvísifallinu og náttúrulega logranum

Skilgreining

Látum \(a>0\) og \(x \in \mathbb{R}\). Skilgreinum \(y=a^x\) þannig að

\[y = a^x = e^{x\ln(a)}.\]

Þessi skilgreining hjálpar okkur að átta okkur betur á vísisföllum þar sem að \(a\) er óræð tala.

6.2.18. Setning: Afleiður og heildi vísisfalla

Setning

Látum \(a>0\). Þá gildir að

\[\frac{d}{dx}a^x = a^x \ln(a)\]

og

\[\int a^x dx = \frac{1}{\ln(a)}a^x+C.\]

6.2.19. Setning: Afleiða logra

Setning

Látum \(b>0\). Þá gildir að

\[\frac{d}{dx}\log_b(x)=\frac{1}{x\ln(b)}.\]

6.2.20. Dæmi: Afleiða logra

Dæmi

Reiknum afleiðuna

\[\frac{d}{dx}\log_8(7x^2+4).\]

6.3. Veldisvísisvöxtur og -hnignun

Veldisvísisvöxtur er til staðar í mörgum líffræðilegum kerfum. Vexti þessara líkana má lýsa með formúlunni

\[y=y_0e^{kt}\]

þar sem \(y_0\) er upphafsástand kerfisins og \(k\) er jákvæður fasti. Athugið að um þessi líkön gildir að

\[y' = ky_0e^{kt} = ky.\]

Þ.e. vaxtarhraði er í hlutfalli við fallgildið. Þetta er eitt af lykileiginleikum veldisvísisvaxtar.

6.3.1. Setning: Veldisvísisvöxtur

Setning

Veldisvísisvexti má lýsa með formúlunni

\[y = y_0e^{kt}\]

þar sem \(y_0\) er upphafsástand kerfisins og \(k\) er jákvæður fasti sem kallaður er vaxtarfasti.

6.3.2. Dæmi: Veldisvísisvöxtur

Dæmi

Gefið er að fjöldi baktería í tilraunadiski sé 200 í upphafi og hafi vaxtarfastann 0,02. Fjölgun bakteríanna má lýsa með fallinu

\[f(t)=200e^{0,02t}\]

þar sem \(t\) er tíminn í mínútum. Hve margar bakteríur verða í disknum eftir 5 klst (300 mín)? Hvenær verður fjöldi baktería orðinn 100.000?

6.3.3. Skilgreining: Tvöföldunartími

Skilgreing

Ef fjöldi eykst með veldisvísisvexti þá er tvöföldunartíminn sá tími sem það tekur fjöldann að tvöfaldast. Tvöföldunartíma má reikna með

\[D = \frac{\ln(2)}{k}\]

6.3.4. Dæmi: Tvöföldunartími

Dæmi

Gerum ráð fyrir að fjöldi fiska í ákveðinni tjörn aukist með veldisvísisvexti. Upphaflega voru settir 500 fiskar í tjörnina. Eftir 6 mánuði voru fiskarnir orðnir 1000. Eigandi tjarnarinnar mun leyfa vinum og vandamönnum að veiða í tjörninni þegar fiskarnir eru orðnir 10.000 talsins. Hvenær mun það gerast?

6.3.5. Veldisvísishnignun

Veldisvísisfallið má einnig nota til að lýsa fjölda sem dregst saman og öðru sambærilegu eins og niðurbrotstíma geislavirkra efna.

6.3.6. Setning: Veldisvísishnignun

Setning

Kerfi, þar sem á sér stað veldisvísishnignum, má lýsa með líkaninu

\[y = y_0 e^{-kt},\]

þar sem \(y_0\) er upphafsástand kerfisins og \(k>0\) er fasti sem kallaður er hnignunarfasti.

6.3.7. Setning: Helmingunartími

Setning

Helmingunartími er sá tími sem það tekur fjölda sem fylgir veldisvísishnignun að fækka um helming. Helmingunartíma má reikna með

\[H = \frac{\ln(2)}{k}.\]

6.3.8. Dæmi: Helmingunartími

Dæmi

Kolefnisaldursgreining (e. carbon dating) er sú aðferð sem hvað flestir tengja við veldisvísishnignun. Kolefni-14 (sem gefur frá sér geislavirkar eindir) hnignar með reglulegum veldisvísishraða. Svo ef við vitum hve mikið kolefni var upphaflega til staðar í hlut og hve mikið kolefni er eftir, getum við ákvarðað aldur viðkomandi hlutar. Helmingunartími kolefni-14 er u.þ.b. 5730 ár. Leysum eftirfarandi verkefni.

  1. Ef við höfum 100g af kolefni-14 í dag, hve mikið er þá til staðar eftir 50 ár?

  2. Ef hlutur sem upphaflega innihélt 100 g af kolefni inniheldur nú 10g, hve gamall er hann?