1. Inngangur

Nú á dögum er hægt að fá tölulegar upplýsingar um nánast allt milli himins og jarðar og mikilvægi góðrar tölfræðikunnáttu fer vaxandi hjá sífellt fleiri fræðasviðum. Hvort sem um er að ræða lyfjafræðing sem vill kanna hvort nýtt lyf hafi sambærilega virkni og önnur lyf á markaðnum eða ferðamálafræðing sem skoðar vinsælustu áfangastaði hérlendis, styðjast báðir aðilar við tölfræði til að draga ályktanir sínar.

Í stuttu máli má segja að verkefni okkar í tölfræði snúist um að nýta sem best þær upplýsingar sem við fáum með tölulegum gögnum. Til að svo megi verða þarf að huga að mörgu: Högun tilraunarinnar þaðan sem gögnunum er aflað, skráningu og úrvinnslu gagnanna og að lokum túlkun á niðurstöðunum. Í þessari bók verður veigamestu atriðum þessara fjögurra þátta gerð skil og auk þess fjallað um hinar ýmsu tölfræðiaðferðir sem nota má á breiðan flokk gagna.

1.1. Framsetning

1.1.1. Framsetning

Lestur þessarar bókar gerir ekki forkröfu um stærðfræðikunnáttu utan almenns stúdentsprófs og ætti hún því að vera aðgengileg flestum þeim sem feta sín fyrstu spor í tölfræðinámi. Skerpt er á áhersluatriðum með því að rita þau í áherslukassa eins og sjá má á næstu síðu. Sérhver kassi ber titil og enska þýðingu á titlinum þegar við á. Þeir hafa einnig hver sitt númer sem vísar til kaflans þar sem þeir standa. Því ætti að vera fljótlegt að fletta upp kössum sem vísað er til í öðrum köflum.

Þegar kassarnir innihalda áhersluatriði sem eru stærðfræðilega krefjandi fylgir nánari skýring á umfjöllunarefni kassans beint að honum loknum í skýringarkassa. Hann má sjá á næstu síðu. Lesendur með góða stærðfræðikunnáttu geta því litið framhjá efni skýringarkassanna en þeir koma lesendum með minni færni í stærðfræði vonandi að góðum notum.

1.1.1.1. Áhersluatriði (Ensk þýðing ef við á)

Athugið

Lýsing á áhersluatriðinu.


Athugasemd

Nánari skýring á áhersluatriðinu að ofan ef þurfa þykir.


Tugabrotum er skipt upp í heiltöluhluta og aukastafi. Á Íslandi er hefð fyrir því að nota kommu til að skilja á milli heiltöluhluta og aukastafa tugabrota. Heiltöluhlutinn stendur vinstra megin við kommuna en aukastafirnir hægra megin við hana. Sá ritháttur er þó sjaldgæfur í öðrum löndum, algengast er að punktur sé notaður til að greina á milli heiltöluhluta og aukastafa. Það veldur því að mörg tölfræðiforrit gera ráð fyrir því að aukastafir tugabrota séu aðgreindir með punkti og stundum getur verið illfært að lesa inn gögn þar sem komma er notuð til aðgreiningar. Þá sögu er til að mynda að segja um tölfræðiforritið R sem er geysiöflugt og mikið notað bæði hér á landi sem erlendis. Því munum við ætíð nota punkt til aðgreiningar aukastafa. Þannig er stærðin ,,þrír komma fjórir“ rituð 3.4 en ekki 3,4 eins og margir eiga að venjast.

1.2. Yfirlit yfir efni bókarinnar

Tölfræði getur verið margslungin og til að beita henni af öryggi er viss kunnátta í stærðfræði, sérstaklega líkindafræði, nauðsynleg. Því leggjum við nokkrar lykkjur á leið okkar í umfjöllun um tölfræði; til að leggja grunn að þeim líkindafræðihugtökum sem á þarf að halda. Þessar lykkjur mega þó ekki verða til þess að við missum stefnuna og því ætlum við í upphafi lesturs að gefa stutt yfirlit yfir það hvað tölfræði er og hvert markmið okkar er með þeim tölfræðiaðferðum sem við beitum.

Margar kennslubækur skipta tölfræði upp í lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði. Þó að þessir tveir flokkar dugi ekki til að lýsa öllu því sem við köllum tölfræði, eins og til dæmis úrtakshögun, þá eru þeir afar mikilvægir og spanna ógrynni gagnlegra aðferða.

Lýsandi tölfræði (e. descriptive statistics) snýst um að lýsa sem best því úrtaki sem við höfum í höndunum. Það gerum við bæði með því að reikna útkomur ákveðinna lýsistærða sem lýsa gögnunum en einnig með því að setja gögnin skýrt fram á myndrænan hátt. Þið hafið eflaust heyrt um algengustu lýsistærðirnar eins og meðaltal og staðalfrávik og það er sjaldgæft að fletta dagblaði án þess að rekast á nokkur gröf. Lýsandi tölfræði verður tekin fyrir í köflum 3 og 4.

Ályktunartölfræði (e. inferential statistics) beinir kastljósinu frá úrtakinu sjálfu og að öllu þýðinu. Markmið ályktunartölfræði er að staðhæfa um allt þýðið út frá úrtaki sem við höfum mælingar á. Þar koma fyrir hugtök eins og öryggisbil og villulíkur sem oft eru notuð í daglegu tali. Ályktunartölfræði er eingöngu hægt að framkvæma á slembiúrtökum sem kynnt eru í kafla 2. Því leyfum við okkur, þegar við fjöllum um ályktunartölfræði, að tala um úrtök þegar við eigum strangt til tekið við slembiúrtök.

Líkt og í lýsandi tölfræði reiðum við okkur á lýsistærðir í ályktunartölfræði. Hins vegar skoðum við ekki einvörðungu útkomuna sjálfa heldur segjum einnig til um hvaða önnur gildi er líklegt að fá ef nýtt slembiúrtak væri valið. Slíkt krefst þekkingar á líkindafræði, slembistærðum, helstu líkindadreifingum og nánari kynnum af líkindafræðilegum eiginleikum lýsistærða. Þessi atriði verða tekin fyrir í kafla 5. Að því loknu fjöllum við um þá hugmyndafræði sem ályktunartölfræði byggir á (í kafla 6 ) en ályktunartölfræði mun ráða ríkjum í öllum köflum þaðan í frá.

Sú ályktunartölfræði sem kynnt er í þessari bók er fyrst og fremst af tvennum toga. Annars vegar reiknum við öryggisbil og hins vegar framkvæmum við tilgátupróf. Við byrjum á kafla 7 þar sem við fjöllum um ályktunartölfræði sem við framkvæmum á flokkabreytum. Að því loknu eru ályktanir um talnabreytur teknar fyrir í kafla 8. Fervikagreining er umfjöllunarefni 9. kafla en hana má einnig nota til að draga ályktanir um talnabreytur. Í 10. kafla kveður við nýjan tón þegar við skoðum línulega aðhvarfsgreiningu en markmið hennar er að kanna línulegt samband tveggja breyta. Að lokum kynnumst við tvíkosta aðhvarfsgreiningu í kafla 11.