11. Hugtakalisti

SI-einingakerfið er safn 7 staðlaðra grunneininga sem notaðar eru í vísindum. Þeirra á meðal er metri fyrir vegalengdir og kílógramm fyrir massa.


Hraði (e. velocity) er breyting á staðsetningu hlutar á einhverju tímabili. Einingin fyrir hraða eru metrar á sekúndu, \(\text{m/s}\).


Hröðun (e. acceleration) er breyting á hraða hlutar á einhverju tímabili. Einingin fyrir hröðun eru metrar á sekúndu í öðru veldi, \(\text{m/s}^2\).


Massi (e. mass) hlutar segir til um hve mikið af efni er í hlut. Einingin fyrir massa er kílógramm, \(\text{kg}\).


Eðlismassi (e. density) er hlutfall massa hlutar og rúmmálsins sem hann tekur. Einingin fyrir eðlismassa er kílógramm á rúmmetra, \(\text{kg/m}^3\).


Skriðþungi (e. momentum) er margfeldi hraða hlutar og massa hans. Eining skriðþunga er kílógramm metri á sekúndu, \(\text{kg m/s}\).


Kraftur (e. force) er víxlverkun sem veldur hröðun hluta. Kraftar eru vigrar (hafa bæði stærð og stefnu) og eining þeirra er Newton, \(1 \text{N} = 1 \frac{\text{kg m}}{\text{s}^2}\).


Vægi (vogarafl, tork) (e. torque) er margfeldi krafts og lengdar armsins sem hann verkar um. Eining vægis er Newton metri, \(\text{N m}\).


Orka (e. energy) kerfis segir til um hve mikið þarf til þess að breyta ástandi þess. Orku er hvorki hægt að búa til né eyða, en hún getur breytt um form. Eining orku er Joule, \(1\text{J}= 1 \text{N m} = 1\frac{\text{kg m}^2}{\text{s}^2}\).


Vinna (e. work) er margfeldi (innfeldi) krafts og vegalengdar sem hann flytur hlut. Vinna hefur sömu einginar og orka.


Afl (e. power) er breyting vinnu með tilliti til tíma. Afl hefur einginguna Watt, sem er orka á tímaeininingu, \(1\text{W}= 1 \frac{\text{J}}{\text{s}}\)


Hreyfiorka (e. kinetic energy) er orka hlutar sem er á hreyfingu. Hreyfiorka hefur sömu einingar og orka.


Stöðuorka (gravitational potential energy) hlutar í þyngdarsviði er orka sem hlutur býr yfir vegna nálægðar við yfirborð hnattar. Stöðuorka hefur sömu einingar og orka.


Vigur (e. vector) er stærðfræðilegt hugtak fyrir fyrirbæri sem hafa bæri stærð og stefnu. Einingar vigra fer eftir því hverju þeir eru að lýsa, t.d. hafa hraðavigrar sömu einingar og hraði. Nánar má lesa um vigra og reiknireglur þeirra kaflanum um vigra.


Þegar talað er um að einhver stærð A eða breyta sé háð annarri stærð B þýðir það að ef B breytist þá breytist A líka. Til dæmis er hreyfiorka hlutar, sem hefur massann \(m\) og ferðast á hraðanum \(v\), hreyfiorkuna \(K=\frac{1}{2}mv^2\). Hreyfiorka hlutarins er háð massanum og hraðanum af því \(K\) mun breytast ef \(m\) eða \(v\) breytast.